19 Gekk konungur síðan heim í höll sína og var þar um nóttina og fastaði. Hann lét ekki færa frillur inn til sín og var andvaka um nóttina.
20 Konungur reis úr rekkju strax er lýsa tók af degi og skundaði til ljónagryfjunnar. 21 Hann kom að ljónagryfjunni og kallaði þá á Daníel dapurri röddu. Konungur tók til máls og sagði: „Daníel, þjónn hins lifandi Guðs, hefur Guð þinn, sá sem þú vegsamar án afláts, megnað að frelsa þig undan ljónunum?“ 22 Þá sagði Daníel við konung: „Konungur, megir þú lifa að eilífu. 23 Guð sendi engil sinn og hann lokaði gini ljónanna svo að þau unnu mér ekkert mein. Gagnvart honum hef ég reynst saklaus og í engu hef ég brotið gegn þér, konungur.“ 24 Varð nú konungur harla glaður og skipaði mönnum að draga Daníel upp úr gryfjunni. Og Daníel var dreginn upp úr gryfjunni og var ekki að sjá að honum hefði orðið neitt að meini enda hafði hann treyst Guði sínum.
25 En konungur bauð að mennirnir, sem höfðu rægt Daníel, yrðu sóttir og þeim, börnum þeirra og konum kastað í ljónagryfjuna. Og áður en þau kenndu botns í gryfjunni hremmdu ljónin þau og bruddu öll bein þeirra.
26 Daríus konungur ritaði nú öllum mönnum sem búa á jörðinni, af öllum þjóðum og öllum tungum: „Megi ykkur vel farnast.
27 Þá skipun birti ég að í öllu ríki mínu skulu menn óttast og virða Guð Daníels.
Hann er hinn lifandi Guð
og varir að eilífu.
Ríki hans hrynur ekki
og vald hans mun engan enda taka.
28 Hann frelsar og bjargar,
hann gerir tákn og undur á himni og jörð,
hann sem bjargaði Daníel úr klóm ljónanna.“

29 Og vegur Daníels var mikill bæði á stjórnartímum Daríusar og á stjórnarárum Kýrusar hins persneska.