7 Þessir yfirhöfðingjar og héraðshöfðingjar skunduðu nú á konungs fund og sögðu: „Daríus konungur, megir þú lifa að eilífu. 8 Allir yfirhöfðingjar ríkisins, landstjórar, héraðshöfðingjar, ráðgjafar og landshöfðingjar hafa komið sér saman um að gefin skuli út konungsskipun til staðfestingar því að hverjum þeim skuli varpað í ljónagryfju sem í þrjátíu daga snýr bænum sínum til nokkurs guðs eða manns annars en þín, konungur. 9 Nú skaltu, konungur, gefa þetta bannákvæði út og láta skrá það og birta svo að því verði ekki breytt fremur en öðrum órjúfanlegum lögum Meda og Persa.“ 10 Eftir þessu fór konungur og staðfesti bannskjalið.
11 Daníel frétti að þessi tilskipun hefði verið gefin út. Gekk hann þá inn í hús sitt. Á efri hæð hafði hann opna glugga sem vissu að Jerúsalem og þrisvar á dag kraup hann á kné, bað til Guðs síns og vegsamaði hann eins og vandi hans hafði verið. 12 Nú skunduðu þessir menn til og komu að Daníel þar sem hann var að biðja og ákalla Guð sinn.
13 Þeir gengu því næst fyrir konung og færðu konungsbannið í tal við hann: „Hefur þú ekki staðfest það bannákvæði að hverjum þeim sem í þrjátíu daga snýr bænum sínum til nokkurs guðs eða manns annars en þín, konungur, skuli varpað í ljónagryfju?“ Konungur svaraði: „Það er föst ákvörðun eftir órjúfanlegu lögmáli Meda og Persa.“ 14 Þeir sögðu þá við konung: „Daníel, einn af Gyðingunum herleiddu, skeytir hvorki um þig, konungur, né bannið sem þú hefur gefið út, heldur gerir hann bæn sína þrisvar á dag.“ 15 Konungi var brugðið er hann heyrði þetta og hugleiddi hann nú hvernig bjarga mætti Daníel. Allt til sólarlags leitaði hann ráða honum til hjálpar. 16Þessir sömu menn hröðuðu sér til konungs og sögðu: „Þú veist, konungur, að lög Meda og Persa mæla svo fyrir að hvorki megi raska boði né banni sem konungur hefur staðfest.“
17 Konungur skipaði þá að Daníel skyldi sóttur og honum varpað í ljónagryfjuna. Og konungur sagði við Daníel: „Megi nú Guð þinn frelsa þig, sá sem þú vegsamar án afláts.“ 18 Sóttu menn nú stein og lögðu yfir gryfjuopið en konungur innsiglaði hann með innsiglishring sínum og innsiglishringum yfirhöfðingja sinna svo að engu yrði breytt um þá ráðstöfun sem gerð hafði verið vegna Daníels.