10 En Guð, hvað getum vér nú sagt eftir allt þetta? Vér höfum horfið frá boðum þínum 11 sem þú lést spámennina, þjóna þína, leggja fyrir oss og sagðir: Landið, sem þér eruð að fara inn í til þess að taka til eignar, er óhreint. Þjóðirnar í landinu hafa saurgað það. Með andstyggilegum siðum sínum hafa þær fyllt það viðurstyggð landshorna á milli. 12 Gefið því ekki dætur yðar sonum þeirra og takið ekki dætur þeirra að konum handa sonum yðar. Þér megið aldrei stuðla að farsæld þeirra og velgengni ef þér eigið að eflast og njóta gæða landsins og fá það niðjum yðar í arf um alla framtíð.
13 Eftir allt, sem komið er yfir oss vegna illra verka vorra og mikillar sektar, hefur þú, Guð vor, samt hegnt oss minna en afbrot vor gáfu tilefni til og leyft að þessi hópur kæmist af. 14 Ættum vér þá að brjóta boð þín á ný og mægjast við þessar viðurstyggilegu þjóðir? Hlytir þú þá ekki að úthella reiði þinni yfir oss þar til vér værum gersamlega afmáð svo að enginn kæmist af og enginn bjargaðist og yrði eftir?
15 Drottinn, Guð Ísraels, þú ert réttlátur. Þess vegna vorum vér skilin eftir og erum nú sá hópur sem bjargaðist. Líttu til oss, vér stöndum frammi fyrir þér í sekt vorri. Enginn fái staðist frammi fyrir þér sökum hennar.“