Musterisræðan

1 Í upphafi stjórnar Jójakíms Jósíasonar Júdakonungs kom þetta orð frá Drottni: 2 Svo segir Drottinn: Gakktu inn í forgarð húss Drottins og ávarpaðu alla þá sem koma frá borgunum í Júda til að biðjast fyrir í húsi Drottins. Flyttu þeim allt sem ég býð þér án þess að draga neitt undan. 3 Ef til vill hlusta þeir og snúa hver og einn frá villu síns vegar. Þá mun ég iðrast þeirrar ógæfu sem ég hugðist leiða yfir þá vegna illrar breytni þeirra.
4 Þú skalt segja við þá: Svo segir Drottinn: Ef þér hlýðið ekki á mig og fylgið ekki lögmáli mínu sem ég hef lagt fyrir yður 5 og hlustið ekki á ræður þjóna minna, spámannanna, sem ég hef hvað eftir annað sent til yðar án þess að þér hlustuðuð á þá, 6 mun ég fara með þetta hús eins og Síló. Þessa borg mun ég gera að bölvun fyrir allar þjóðir jarðar.
7 Prestarnir, spámennirnir og allt fólkið hlustaði á Jeremía þegar hann flutti þessa ræðu í húsi Drottins. 8 En þegar Jeremía hafði lokið við að segja allt það sem Drottinn hafði falið honum að tala til fólksins gripu prestarnir hann, spámennirnir og allt fólkið og hrópuðu: „Þú skalt svo sannarlega deyja. 9 Hvers vegna boðar þú í nafni Drottins að fyrir þessu húsi fari eins og Síló og þessi borg verði lögð í rúst og yfirgefin?“ Síðan þyrptist allt fólkið að Jeremía í húsi Drottins.
10 Þegar höfðingjar Júda fréttu þetta gengu þeir frá konungshöllinni til húss Drottins og settust við Nýja hliðið. 11Því næst ávörpuðu prestarnir og spámennirnir höfðingjana og allt fólkið og sögðu: „Þessi maður er dauðasekur því að hann hefur flutt spádómsorð gegn þessari borg eins og þér hafið heyrt með eigin eyrum.“