Musterisræðan

1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: 2 Taktu þér stöðu við hliðið að húsi Drottins, flyttu þar þessa ræðu og segðu: Heyrið orð Drottins, allir Júdamenn, sem gangið inn um þetta hlið til að tilbiðja Drottin. 3 Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Bætið breytni yðar og verk, þá mun ég búa á meðal yðar hér á þessum stað. 4 Treystið ekki lygaræðum þegar sagt er: „Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins.“
5 Nei, ef þér gerbreytið háttum yðar og verkum, ef þér sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, 6 kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur, úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og eltið ekki aðra guði yður til tjóns, 7 þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað, í landinu sem ég gaf feðrum yðar til eignar um aldir alda.
8 En þér treystið gagnslausum lygaræðum, lognum boðskap sem er gagnslaus. 9 Þegar þér hafið stolið, myrt, drýgt hór, svarið meinsæri, fórnað til Baals og elt aðra guði sem þér hafið ekki þekkt fyrr, 10 getið þér þá komið og gengið fram fyrir auglit mitt í þessu húsi sem kennt er við nafn mitt[ og sagt: „Vér erum hólpnir,“ og haldið síðan áfram að fremja sömu svívirðu? 11 Er þetta hús, sem kennt er við nafn mitt, ræningjabæli í yðar augum? Já, ég lít svo á, segir Drottinn. 12 Farið til helgistaðar míns í Síló þar sem ég lét nafn mitt búa áður fyrr. Virðið fyrir yður hvernig ég hef farið með hann vegna illsku lýðs míns, Ísraels. 13 En þér hafið nú unnið öll sömu verk, segir Drottinn. Þótt ég talaði til yðar seint og snemma hlustuðuð þér ekki og þótt ég hrópaði til yðar svöruðuð þér ekki.
14 Þess vegna ætla ég að fara með þetta hús, sem kennt er við nafn mitt og þér treystið á, eins og ég fór með Síló. Ég ætla að fara með staðinn sem ég gaf yður og feðrum yðar eins og ég fór með Síló. 15 Ég mun reka yður frá augliti mínu eins og ég rak alla bræður yðar frá mér, alla niðja Efraíms.