4 Ef þú gengur fyrir auglit mitt, eins og Davíð, faðir þinn, gerði af heilum huga og í einlægni, og ef þú gerir allt sem ég hef boðið þér, heldur ákvæði mín og lög, 5 mun ég um aldur og ævi styðja hásæti konungdóms þíns yfir Ísrael eins og ég lofaði Davíð, föður þínum: Niðjar þínir munu ætíð sitja í hásæti Ísraels. 6 En ef þið og synir ykkar snúið frá mér og haldið ekki boð þau og fyrirmæli sem ég hef sett ykkur en farið og þjónið öðrum guðum og sýnið þeim lotningu, 7 mun ég eyða Ísraelsmönnum úr landinu sem ég fékk þeim. Húsið, sem ég hef helgað nafni mínu, mun ég fjarlægja frá augliti mínu og Ísrael mun verða hafður að háði og spotti meðal allra þjóða. 8 Þetta hús skal verða rúst og sérhver, sem gengur þar hjá, mun fyllast skelfingu. Menn munu grípa andann á lofti og spyrja: Hvers vegna hefur Drottinn leikið svo hart þetta land og þetta hús? 9 Og svarið verður: Af því að íbúarnir yfirgáfu Drottin, Guð sinn, sem leiddi forfeður þeirra út úr Egyptalandi. Þeir bundust öðrum guðum, sýndu þeim lotningu og þjónuðu þeim. Þess vegna hefur Drottinn sent allt þetta böl yfir þá.“