Nýr sáttmáli
31 Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég geri nýjan sáttmála við Ísraelsmenn og Júdamenn. 32 Hann verður ekki eins og sáttmálinn sem ég gerði við feður þeirra þegar ég tók í hönd þeim og leiddi þá út úr Egyptalandi. Þeir rufu þann sáttmála við mig þótt ég væri herra þeirra, segir Drottinn. 33 Þannig er sáttmálinn sem ég mun gera við Ísraelsmenn þegar þessir dagar eru liðnir, segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra. Ég verð Guð þeirra og þeir verða lýður minn. 34 Enginn mun framar þurfa að kenna landa sínum og bróður og segja: Þekkið Drottin. Allir munu þekkja mig, bæði stórir og smáir, segir Drottinn. Ég mun fyrirgefa þeim sekt þeirra og minnist ekki framar syndar þeirra.