Dýrin tvö

1 Þá sá ég dýr stíga upp af hafinu. Það hafði tíu horn og sjö höfuð og á hverju horni var ennisdjásn og á höfðum þess voru skráð nöfn með guðlasti. 2 Dýrið, sem ég sá, var líkt pardusdýri, fætur þess voru sem bjarnarfætur og gin þess eins og ljónsgin. Drekinn gaf því mátt sinn og hásæti sitt og vald mikið. 3 Eitt af höfðum þess virtist sært til ólífis en banasár þess varð heilt. Öll jörðin fylgdi dýrinu með undrun 4 og menn tilbáðu drekann af því að hann hafði gefið dýrinu vald sitt. Og þeir tilbáðu dýrið og sögðu: „Hver jafnast á við dýrið og hver getur barist við það?“
5 Og því var gefinn munnur, er mælti gífuryrði og guðlast, og leyft að fara því fram í fjörutíu og tvo mánuði. 6 Það lauk upp munni sínum til að lastmæla Guði, nafni hans, bústað hans og þeim sem á himni búa. 7 Og því var leyft að heyja stríð við hina heilögu og sigra þá og því var gefið vald yfir sérhverri kynkvísl og lýð, tungu og þjóð. 8 Og allir þeir sem á jörðunni búa og eiga nöfn sín ekki frá grundvöllun veraldar rituð í lífsbók lambsins, sem slátrað var, munu tilbiðja það. 9 Sá sem eyra hefur hann heyri.
10 Sá sem ánauð er ætluð fer í ánauð, sá sem ætlað er að falla fyrir sverði verður með sverði felldur. Hér reynir á þolgæði og trú hinna heilögu.