1Þeim sem oft hefur verið átalinn en þrjóskast við
verður skyndilega hrundið og engin lækning fæst.
2Þegar réttlátum vex máttur gleðst þjóðin
en þegar ranglátir drottna stynur þjóðin.
3Sá sem elskar visku gleður föður sinn
en sá sem leggur lag sitt við skækjur glatar eigum sínum.
4Konungurinn eflir landið með rétti
en þungar álögur eyða það.
5Smjaðri maður fyrir náunga sínum
leggur hann net fyrir fætur hans.
6Í misgjörð vonds manns er honum búin snara
en réttlátur maður fagnar og gleðst.
7Réttlátur maður kynnir sér málefni hinna lágt settu
en ranglátur maður hirðir ekki um að kynna sér þau.
8Spottarar æsa upp borgina
en vitrir menn lægja reiðina.
9Þegar vitur maður á í þrætu við afglapa
reiðist og hlær afglapinn en lausn fæst engin.
10Blóðvargarnir hata hinn ráðvanda
en réttvísir menn láta sér annt um líf hans.
11Heimskinginn eys út allri reiði sinni
en vitur maður hefur stjórn á henni.
12Þegar valdhafinn hlýðir á lygaorð
verða allir þjónar hans sekir.
13Fátæklingurinn og kúgarinn mætast,
Drottinn ljær ljós augum beggja.