11 Drottinn sagði enn fremur við mig: Ekki biðja um að þessu fólki farnist vel. 12 Þegar þeir fasta hlusta ég ekki á kvein þeirra. Þegar þeir færa brennifórn eða kornfórn gleðst ég ekki yfir þeim. Ég mun gereyða þeim með sverði, hungri og drepsótt.
13 Þá sagði ég: Æ, herra Drottinn! Spámennirnir segja við þá: Þér munuð ekki sjá sverð og ekkert hungur steðjar að því að ég mun veita yður varanlega heill á þessum stað.
14 En Drottinn svaraði mér: Spámennirnir boða lygi í mínu nafni. Ég hef hvorki sent þá, gefið þeim fyrirmæli né talað til þeirra. Upplognar sýnir, fánýtar spásagnir og eigin uppspuna boða þeir yður. 15 Þess vegna mælir Drottinn svo gegn spámönnunum sem flytja boð í mínu nafni án þess að ég hafi sent þá og segja að hvorki sverð né hungur muni ganga yfir þetta land: Þessir spámenn munu falla fyrir sverði og deyja úr hungri. 16 En mönnunum, sem þeir fluttu þessi boð, verður fleygt á göturnar í Jerúsalem. Þeir munu falla úr hungri og fyrir sverði. Enginn mun grafa þá, hvorki þá sjálfa né konur þeirra, syni þeirra né dætur. Þannig mun ég úthella yfir þá þeirri ógæfu sem þeir verðskulda.