12 Ég þakka honum sem mig styrkan gerði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu, 13 mér sem fyrrum lastmælti honum, ofsótti hann og smánaði. En mér var miskunnað, sökum þess að ég trúði ekki og vissi ekki hvað ég gerði, 14 og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum sem veitist í Kristi Jesú.
15 Það orð er satt, og í alla staði þess vert að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn og er ég þar fremstur í flokki. 16 En Guð miskunnaði mér til þess að ég yrði fyrstur þeirra sem Kristur Jesús sýnir allt sitt mikla langlyndi og þar með yrði ég dæmi handa þeim sem á hann munu trúa til eilífs lífs.
17 Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.