12 En þú, mannssonur, segðu við landa þína: Réttlæti hins réttláta mun ekki bjarga honum daginn sem hann brýtur af sér. Ranglæti hins rangláta mun ekki heldur fella hann daginn sem hann hverfur frá ranglæti sínu. Hinn réttláti mun ekki halda lífi vegna réttlætis síns þegar hann syndgar. 13 Þegar ég segi um hinn réttláta: „Hann skal lifa,“ en hann treystir á réttlæti sitt og fremur ranglæti skal engra réttlátra verka hans minnst verða. Hann skal deyja vegna þess ranglætis sem hann framdi.
14 En segi ég við hinn rangláta: „Þú skalt deyja,“ og hann hverfur frá synd sinni og iðkar rétt og réttlæti, 15 skilar aftur veði, bætir fyrir ránsfeng, breytir eftir þeim ákvæðum sem leiða til lífs og gerist ekki sekur um ranglæti, þá skal hann vissulega lifa, hann skal ekki deyja. 16 Engra þeirra synda, sem hann hefur drýgt, skal minnst. Hann hefur iðkað rétt og réttlæti, hann skal lífi halda.
17 Landar þínir segja: „Breytni Drottins er ekki rétt,“ en það er þeirra eigin breytni sem ekki er rétt. 18 Þegar hinn réttláti snýr frá réttlæti sínu og fremur ranglæti skal hann deyja vegna þess. 19 En þegar hinn rangláti snýr frá ranglæti sínu og iðkar rétt og réttlæti skal hann lífi halda vegna þess. 20 Samt segið þið, Ísraelsmenn: „Breytni Drottins er ekki rétt.“ En ég mun dæma ykkur, Ísraelsmenn, hvern og einn eftir breytni sinni.