32 María kom þangað sem Jesús var og er hún sá hann féll hún honum til fóta og sagði við hann: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn.“
33 Þegar Jesús sá hana gráta og þau[ gráta, sem með henni komu, komst hann við, varð djúpt hrærður 34 og sagði: „Hvar hafið þið lagt hann?“
Þau sögðu: „Drottinn, kom þú og sjá.“ 35 Þá grét Jesús.
36 Þau[ sögðu: „Sjá, hversu hann hefur elskað hann!“
37 En nokkrir sögðu: „Gat ekki sá maður sem opnaði augu hins blinda einnig varnað því að þessi maður dæi?“
38 Jesús varð aftur mjög djúpt hrærður og fór til grafarinnar. Hún var hellir og steinn fyrir. 39 Jesús segir: „Takið steininn frá!“
Marta, systir hins dána, segir við hann:
„Drottinn, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag.“
40 Jesús segir við hana: „Sagði ég þér ekki: Ef þú trúir munt þú sjá dýrð Guðs?“ 41 Nú var steinninn tekinn frá. En Jesús hóf upp augu sín og mælti: „Faðir, ég þakka þér að þú hefur bænheyrt mig. 42 Ég vissi að sönnu að þú heyrir mig ávallt en ég sagði þetta vegna mannfjöldans sem stendur hér umhverfis til þess að fólkið trúi að þú hafir sent mig.“ 43 Að svo mæltu hrópaði hann hárri röddu: „Lasarus, kom út!“ 44 Hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. Jesús segir við fólkið: „Leysið hann og látið hann fara.“

45 Margir Gyðingar sem komnir voru til Maríu og sáu það sem Jesús gerði tóku nú að trúa á hann.