Sálmur 120
1 Helgigönguljóð.[
Ég ákalla Drottin í nauðum mínum
og hann bænheyrir mig.
2Drottinn, bjarga mér frá ljúgandi vörum
og tælandi tungum.
3Hvernig mun hann hegna þér,
hvað láta koma yfir þig,
svikula tunga?
4Hvesstar örvar hermanns
ásamt glóandi kolum.
5Vei mér því að ég dvelst í Mesek,
verð að búa hjá tjaldbúðum Kedars. [
6Of lengi hef ég búið
hjá þeim er friðinn hata.
7Þegar ég tala um frið
vilja þeir ófrið.
Sálmur 121
1 Helgigönguljóð.
Ég hef augu mín til fjallanna,
hvaðan kemur mér hjálp?
2Hjálp mín kemur frá Drottni,
skapara himins og jarðar.
3Hann mun ekki láta fót þinn skriðna,
vörður þinn blundar ekki.
4Nei, hann blundar ekki og sefur ekki,
hann, vörður Ísraels.
5Drottinn er vörður þinn,
Drottinn skýlir þér,
hann er þér til hægri handar.
6Um daga mun sólarhitinn ekki vinna þér mein
né heldur tunglið um nætur.
7Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu,
hann mun vernda sál þína.
8Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu
héðan í frá og að eilífu.