7 Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma.
8 Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. 9 Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. 10 En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. 11 Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.
12 Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér.
13 Þú skalt ekki morð fremja.
14 Þú skalt ekki drýgja hór.
15 Þú skalt ekki stela.
16 Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
17 Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“