21

161Höfðingjar ofsækja mig að tilefnislausu
en hjarta mitt óttast orð þitt.
162Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu
eins og sá er fær mikið herfang.
163Lygi hata ég og fyrirlít
en lögmál þitt elska ég.
164Sjö sinnum á dag lofa ég þig
fyrir réttlát ákvæði þín.
165Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt
og þeim er við engri hrösun hætt.
166Ég vænti hjálpræðis þíns, Drottinn,
og fer að boðum þínum.
167Ég fylgi fyrirmælum þínum
og elska þau mjög.
168Ég held boð þín og fyrirmæli
og allir vegir mínir eru þér kunnir.

22

169Hróp mitt nálgist auglit þitt, Drottinn,
veit mér skilning samkvæmt orði þínu.
170Grátbeiðni mín komi fyrir auglit þitt,
frelsa mig eins og þú hefur heitið.
171Lofsöngur streymi af vörum mínum
því að þú kennir mér lög þín,
172tunga mín syngi orði þínu lof
því að öll boð þín eru réttlát.
173Hönd þín veiti mér lið
því að ég kaus fyrirmæli þín.
174Ég þrái hjálpræði þitt, Drottinn,
og lögmál þitt er unun mín.
175Gef mér að lifa að ég lofi þig
og reglur þínar veiti mér lið.
176Ég villist eins og týndur sauður,
leita þú þjóns þíns
því að ég hef ekki gleymt boðum þínum.