Sáttmáli Guðs við Nóa

1 Guð blessaði Nóa og syni hans og sagði við þá: „Verið frjósamir, fjölgið ykkur og fyllið jörðina. 2 Öll dýr jarðarinnar, allir fuglar loftsins, allt kvikt á jörðinni og allir fiskar sjávarins skulu óttast ykkur og hræðast. Á ykkar vald er þetta gefið. 3 Allt sem hrærist og lifir skal vera ykkur til fæðu eins og var um grænu grösin en nú gef ég ykkur allt. 4 En kjöts sem líf er enn í, það er blóðið, skuluð þið ekki neyta. 5 Ég mun krefjast reikningsskapar fyrir blóð ykkar, líf ykkar, ég mun krefjast þess af sérhverri skepnu. Úr hendi manns mun ég krefjast reikningsskapar fyrir líf mannsins, af hverjum manni fyrir líf bróður hans.
6Hver sem úthellir blóði manns,
hans blóði skal og úthellt verða af manni,
því að í mynd sinni
skapaði Guð manninn.

7 Verið frjósöm, fjölgið ykkur, verið fjölmenn á jörðinni og margfaldist á henni.“
8 Guð sagði við Nóa og syni hans sem með honum voru: 9 „Ég stofna nú til sáttmála við ykkur og niðja ykkar 10og allar lifandi skepnur sem með ykkur eru, bæði við fugla, búfé og öll dýr merkurinnar með ykkur, við allt sem út úr örkinni gekk, það er öll dýr merkurinnar. 11 Ég stofna til sáttmála við ykkur: Aldrei framar skal allt hold tortímast í vatnsflóði. Aldrei framar mun flóð koma og eyða jörðina.“