7 Eftir mikla umræðu reis Pétur upp og sagði við þá: „Bræður, þið vitið að fyrir löngu valdi Guð mig úr ykkar hópi til að boða heiðingjum fagnaðarerindið svo að þeir fengju að heyra það og taka trú. 8 Og Guð, sem hjörtun þekkir, bar þeim vitni er hann gaf þeim heilagan anda eins og okkur. 9 Engan mun gerði hann á okkur og þeim er hann hreinsaði hjörtu þeirra með trúnni. 10 Hví freistið þið nú Guðs með því að leggja þær byrðar á lærisveinana er hvorki feður vorir né við megnuðum að bera? 11 Við trúum þó því að við verðum hólpnir fyrir náð Drottins Jesú á sama hátt og þeir.“
12 Þá sló þögn á allan hópinn og menn hlýddu á Barnabas og Pál er þeir sögðu frá hve mörg tákn og undur Guð hafði leyft þeim að gera meðal heiðinna þjóða.
13 Þegar þeir höfðu lokið máli sínu sagði Jakob: „Bræður, hlýðið á mig. 14 Símon hefur skýrt frá hvernig Guð sá til þess í fyrstu að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða er bæri nafn hans. 15 Í samræmi við þetta eru orð spámannanna svo sem ritað er:
16Eftir þetta mun ég aftur koma
og endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs.
Ég mun reisa hana úr rústum
og gera hana upp aftur
17svo að mennirnir, sem eftir eru, leiti Drottins,
allir heiðingjarnir sem nafn mitt hefur helgað,
segir Drottinn, sem gerir þetta
18kunnugt frá eilífð.
19 Ég lít því svo á að eigi skuli íþyngja heiðingjum þeim sem snúa sér til Guðs 20 heldur rita þeim að þeir haldi sig frá öllu sem flekkað er af skurðgoðum, frá saurlifnaði, frá kjöti af köfnuðum dýrum og frá blóði. 21 Frá fornu fari hafa menn prédikað Móse í öllum borgum. Hann er lesinn upp í samkundunum hvern hvíldardag.“