Frásögn Péturs

1 En postularnir og söfnuðirnir í Júdeu[ heyrðu að heiðingjarnir hefðu einnig tekið við orði Guðs. 2 Þegar Pétur kom upp til Jerúsalem deildu umskurnarmennirnir á hann og sögðu: 3 „Þú hefur farið inn til óumskorinna manna og etið með þeim.“ 4 En Pétur sagði þeim þá alla söguna frá rótum og mælti:
5 „Ég var að biðjast fyrir í borginni Joppe og sá í sýn hlut nokkurn koma niður, eins og stór dúkur væri látinn síga á fjórum skautum frá himni, og hann kom til mín. 6 Ég starði á hann og hugði að og sá þá ferfætt dýr jarðar, villidýr, skriðdýr og fugla himins, 7 og ég heyrði rödd segja við mig: Slátra nú, Pétur, og et! 8 En ég sagði: Nei, Drottinn, engan veginn því að aldrei hefur neitt vanheilagt né óhreint komið mér í munn. 9 Í annað sinn sagði rödd af himni: Eigi skalt þú kalla það vanheilagt sem Guð hefur lýst hreint! 10 Þetta gerðist þrem sinnum og aftur var allt dregið upp til himins. 11 Samstundis stóðu þrír menn við húsið sem ég var í,[ sendir til mín frá Sesareu. 12 Og andinn sagði mér að fara með þeim hiklaust. Þessir sex bræður urðu mér einnig samferða og við gengum inn í hús mannsins. 13 Hann sagði okkur hvernig hann hefði séð engil standa í húsi sínu er sagði: Send þú til Joppe og lát sækja Símon er kallast Pétur. 14 Hann mun mæla til þín orð sem munu frelsa þig og allt heimili þitt. 15 En þegar ég var farinn að tala kom heilagur andi yfir þá eins og yfir okkur í upphafi. 16 Ég minntist þá orða Drottins er hann sagði: Jóhannes skírði með vatni en þið skuluð skírast með heilögum anda. 17 Fyrst Guð gaf þeim nú sömu gjöf og okkur er við tókum trú á Drottin Jesú Krist, hvernig var ég þá þess umkominn að standa gegn Guði?“
18 Þegar þeir heyrðu þetta stilltust þeir og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: „Guð hefur einnig gefið heiðingjunum kost á að snúa sér til sín og öðlast líf.“