Jesús birtist við Tíberíasvatn
1 Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig: 2 Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. 3 Símon Pétur segir við þá: „Ég fer að fiska.“
Þeir segja við hann: „Við komum líka með þér.“ Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert.
4 Þegar dagur rann stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki að það var Jesús. 5 Jesús segir við þá: „Drengir, hafið þið nokkurn fisk?“
Þeir svöruðu: „Nei.“
6 Hann sagði: „Kastið netinu hægra megin við bátinn og þið munuð verða varir.“ Þeir köstuðu og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn. 7 Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: „Þetta er Drottinn.“ Þegar Símon Pétur heyrði að það væri Drottinn brá hann yfir sig flík – hann var fáklæddur – og stökk út í vatnið. 8 En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum.
9 Þegar þeir stigu á land sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð.
10 Jesús segir við þá: „Komið með nokkuð af fiskinum sem þið voruð að veiða.“
11 Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki þótt þeir væru svo margir.
12 Jesús segir við þá: „Komið og matist.“ En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: „Hver ert þú?“ Enda vissu þeir að það var Drottinn. 13 Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. 14 Þetta var í þriðja sinn sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.