3. kafli

16 Vitið þið eigi að þið eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í ykkur? 17 Ef nokkur eyðir musteri Guðs mun Guð eyða honum því að musteri Guðs er heilagt og þið eruð það musteri. 18 Enginn dragi sjálfan sig á tálar. Ef nokkur ykkar þykist vitur í þessum heimi verði hann fyrst heimskur til þess að hann verði vitur. 19 Því að speki þessa heims er heimska í augum Guðs. Ritað er:
Hann er sá sem sér við klækjum hinna vitru.
20 Og aftur:
Drottinn veit að hugsanir vitringanna eru fánýtar.
21 Þess vegna stæri enginn sig af mönnum. Því að allt er ykkar 22 hvort heldur er Páll, Apollós eða Kefas, heimurinn, líf eða dauði, hið yfirstandandi eða hið komandi, allt er ykkar. 23 En þið eruð Krists og Kristur Guðs.

4. kafli

Ráðsmenn og þjónar

1 Þannig líti menn á okkur sem þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs. 2 Nú er þess krafist af ráðsmönnum að sérhver reynist trúr. 3 En mér er það fyrir minnstu að verða dæmdur af ykkur eða af mannlegu dómþingi. Ég dæmi mig ekki einu sinni sjálfur. 4 Ég er mér ekki neins ills meðvitandi en með því er ég þó ekki sýknaður. Drottinn er sá sem dæmir mig. 5 Dæmið því ekki fyrir tímann áður en Drottinn kemur. Hann mun leiða það í ljós sem í myrkrinu er hulið og afhjúpa allt sem í hjarta dylst. Og þá mun hver um sig hljóta þann lofstír af Guði sem hann á skilið.