Í fótspor Krists

18 Þjónar, hlýðið húsbændum ykkar og sýnið þeim alla lotningu, ekki einungis hinum góðu og sanngjörnu heldur einnig hinum ósanngjörnu. 19 Ef einhver verður fyrir ónotum og líður saklaus vegna meðvitundar um Guð þá er það þakkarvert. 20 Því að hvað er lofsvert við það að sýna þolgæði er þið sætið barsmíðum fyrir afbrot? En að þola illt með þolgæði og hafa þó breytt vel, það er mikilsvert í augum Guðs. 21 Þetta er köllun ykkar. Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. 22 „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ 23 Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. 24 Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð. 25 Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.