9 Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér því að þeir eru þínir 10 og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn. 11 Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við. 12 Meðan ég var hjá þeim varðveitti ég þá í nafni þínu sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar svo að ritningin rættist. 13 Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn. 14 Ég hef gefið þeim orð þitt og heimurinn hataði þá af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. 15 Ég bið ekki að þú takir þá úr heiminum heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. 16 Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. 17 Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur. 18 Ég hef sent þá í heiminn, eins og þú sendir mig í heiminn. 19 Ég helga mig fyrir þá svo að þeir séu einnig helgaðir í sannleika.
20 Ég bið ekki einungis fyrir þessum heldur og fyrir þeim sem á mig trúa fyrir orð þeirra, 21 að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur til þess að heimurinn trúi að þú hafir sent mig. 22Og ég hef gefið þeim þá dýrð sem þú gafst mér svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt, 23 ég í þeim og þú í mér svo að þeir verði fullkomlega eitt til þess að heimurinn viti að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig.