Páll og postularnir í Jerúsalem

1 Fjórtán árum síðar fór ég aftur upp til Jerúsalem ásamt Barnabasi og tók líka Títus með mér. 2 Ég fór þangað eftir opinberun og útskýrði einslega fyrir þeim sem í áliti voru fagnaðarerindið sem ég boða heiðingjum. Það mátti ekki henda að starf mitt væri og hefði verið til einskis. 3 Ekki einu sinni Títus, sem með mér var og var grískur maður, var neyddur til að láta umskerast. 4 Það vildu aðeins falsbræður er illu heilli hafði verið hleypt inn og laumast höfðu inn til að njósna um frelsi okkar sem við höfum í Kristi Jesú. Þeir vildu hneppa okkur í þrældóm. 5En undan þeim létum við ekki eitt andartak til þess að þið gætuð haft fagnaðarerindið óbrenglað. 6 Og þeir sem í áliti voru lögðu ekkert frekara fyrir mig. Hvað þeir einu sinni voru skiptir mig engu, Guð fer ekki í manngreinarálit. 7Þvert á móti sáu þeir að mér var trúað fyrir fagnaðarerindinu til óumskorinna manna eins og Pétri til umskorinna 8því að sá sem hefur eflt Pétur til postuladóms meðal hinna umskornu hefur einnig eflt mig til postuladóms meðal hinna óumskornu. 9 Og er Jakob, Kefas og Jóhannes, sem álitnir voru máttarstólparnir, höfðu komist að raun um hvílík náð mér var veitt, þá réttu þeir mér og Barnabasi hönd sína til samkomulags: Við skyldum fara til hinna óumskornu en þeir til hinna umskornu. 10 Það eitt var til skilið að við skyldum minnast hinna fátæku og einmitt þetta hef ég líka[ kappkostað að gera.