1 Hvað hefur þá Gyðingurinn fram yfir aðra? Eða hvert er gagn umskurnarinnar? 2 Mikið á allan hátt. Fyrst og helst er það að Guð hefur trúað Gyðingum fyrir orðum sínum. 3 Sumir þeirra hafa brugðist. Hvað um það? Getur það gert trúfesti Guðs að engu? 4 Fjarri fer því. Guð skal reynast sannorður þótt sérhver maður reyndist lygari. Eins og ritað er: „Til þess að þú reynist réttlátur í orðum þínum og vinnir þegar þú átt mál að verja.“
5 En ef ranglæti okkar staðfestir réttlæti Guðs hvað eigum við þá að segja? Skyldi Guð, svo að ég tjái mig eins og menn gera, vera ranglátur þegar hann tjáir reiði sína? 6 Fjarri fer því. Hvernig mætti Guð þá dæma heiminn?
7 En verði sannleiki Guðs skýrari, honum til dýrðar, við að sýna að ég er lygari, hvers vegna á ég þá að dæmast sem syndari? 8 Eigum við þá ekki að gera hið illa til þess að hið góða komi fram? Sumir bera mig þeim óhróðri að ég kenni þetta. Þeir munu fá verðskuldaðan dóm.

Enginn er réttlátur

9 Hvað þá? Höfum við Gyðingar þá nokkuð fram yfir aðra? Nei, alls ekki. Ég hef áður lýst sömu sök á hendur Gyðingum jafnt sem Grikkjum, að þeir væru allir á valdi syndarinnar.