42 Þegar Páll og Barnabas gengu út báðu menn um að mál þetta yrði rætt við þá aftur næsta hvíldardag. 43 Og er samkomunni var slitið fylgdu margir Gyðingar og guðræknir menn, sem tekið höfðu trú Gyðinga, þeim Páli og Barnabasi. En þeir töluðu við þá og brýndu fyrir þeim að halda sér fast við náð Guðs.
44 Næsta hvíldardag komu nálega allir bæjarmenn saman til að heyra orð Drottins. 45 En er Gyðingar litu mannfjöldann fylltust þeir ofstæki og mæltu gegn orðum Páls með guðlasti. 46 Páll og Barnabas svöruðu þá einarðlega: „Svo hlaut að vera að orð Guðs væri fyrst flutt ykkur. Þar sem þið nú vísið því á bug og metið sjálfa ykkur ekki verða eilífs lífs, þá snúum við okkur nú til heiðingjanna. 47 Því að svo hefur Drottinn boðið okkur:
Ég hef sett þig til að vera ljós heiðinna þjóða
svo að þú sért hjálpræði allt til endimarka jarðar.“

48 En þegar heiðingjar heyrðu þetta glöddust þeir og vegsömuðu orð Guðs og allir þeir sem ætlaðir voru til eilífs lífs tóku trú. 49 Og orð Drottins breiddist út um allt héraðið.
50 En Gyðingar æstu upp guðræknar hefðarkonur og fyrirmenn borgarinnar, vöktu ofsókn gegn Páli og Barnabasi og ráku þá burt úr byggðum sínum. 51 En þeir hristu dustið af fótum sér móti þeim og fóru til Íkóníum. 52 En lærisveinarnir voru fylltir fögnuði og heilögum anda.