26 Bræður, niðjar Abrahams, og aðrir ykkar á meðal sem óttast Guð. Okkur er sent orð þessa hjálpræðis. 27 Þeir sem í Jerúsalem búa og höfðingjar þeirra þekktu hvorki Jesú né skildu orð spámannanna um hann þótt þau séu lesin upp hvern hvíldardag en uppfylltu þau þegar þeir dæmdu hann til dauða. 28 Þótt þeir fyndu enga dauðasök hjá honum báðu þeir Pílatus að láta lífláta hann. 29 En er þeir höfðu fullnað allt, sem um hann var ritað, tóku þeir hann ofan af krossinum og lögðu í gröf. 30 En Guð vakti hann frá dauðum. 31 Marga daga birtist hann þeim sem með honum fóru frá Galíleu upp til Jerúsalem og eru þeir nú vottar hans hjá fólkinu. 32 Og við flytjum ykkur þau gleðiboð 33 að fyrirheitið, sem Guð gaf feðrum vorum, hefur hann efnt við okkur börn þeirra með því að reisa Jesú upp. Svo er ritað í öðrum sálminum:
Þú ert sonur minn,
í dag hef ég fætt þig.

34 En um það að hann reisti hann frá dauðum, svo að hann hverfur aldrei aftur í greipar dauðans, hefur hann talað þannig:
Yður mun ég veita heilögu, óbrigðulu fyrirheitin sem Davíð voru gefin.
35 Á öðrum stað segir:
Eigi munt þú láta þinn heilaga rotna í gröf.
36 Davíð þjónaði sinni kynslóð að Guðs ráði. Síðan sofnaði hann, safnaðist til feðra sinna og líkami hans rotnaði. 37 En sá sem Guð uppvakti rotnaði ekki. 38 Það skuluð þið því vita, bræður og systur,[ að ykkur er fyrir hann boðuð fyrirgefning syndanna 39 og að sérhver er trúir réttlætist í honum af öllu því er lögmál Móse gat ekki réttlætt ykkur af. 40 Gætið nú þess að eigi komi það yfir ykkur sem sagt er hjá spámönnunum:
41 Sjáið, þér spottarar,
undrist og verðið að engu
því að verk vinn ég á dögum yðar,
verk sem þér alls ekki munduð trúa þótt einhver segði yður frá því.“