10Þeir hata þann sem fellir réttlátan dóm í borgarhliðinu
og forðast þann sem segir satt.
11Af því að þér takið vexti af landleigu lítilmagnans
og leggið skatt á kornuppskeru hans
munuð þér reisa hús úr höggnu grjóti
en ekki búa í þeim sjálfir,
gróðursetja afbragðs víngarða
en ekki drekka vínið sjálfir.
12Já, ég veit að glæpir yðar eru margir
og syndir yðar miklar.
Þér þröngvið þeim sem hefur á réttu að standa,
þiggið mútur og vísið hinum snauða frá réttinum.
13Þess vegna þegir hygginn maður á slíkri tíð
því að það er vond tíð.
14Leitið hins góða en ekki hins illa,
þá munuð þér lifa
og þá verður Drottinn, Guð hersveitanna, með yður
eins og þér hafið sagt.
15Hatið hið illa og elskið hið góða,
eflið réttinn í borgarhliðinu.
Þá má vera að Drottinn, Guð hersveitanna, miskunni sig yfir þá
sem eftir eru af ætt Jósefs.
Dagur Drottins
16Þess vegna segir Drottinn, Guð hersveitanna:
Harmað er á hverju torgi
og kveinað á hverju stræti: „Vei, vei!“
Akuryrkjumaðurinn er kvaddur til sorgarathafnar
og sá sem kann harmljóð er sóttur til að flytja þau.
17Í hverjum víngarði er kveinað
því að ég mun ganga um á meðal yðar,
segir Drottinn.