14 Þú skalt ekki halda launum fyrir fátækum og þurfandi daglaunamanni, hvort heldur hann er einn af bræðrum þínum eða aðkomumönnum í landi þínu, í einhverri af borgum þínum. 15 Þú skalt greiða honum kaup sitt samdægurs áður en sól er sest, því að hann er fátækur og þarf mjög á því að halda, svo að hann hrópi ekki til Drottins að þú verðir sekur um synd.
16 Feður skulu hvorki líflátnir fyrir afbrot sona sinna né synir fyrir afbrot feðra sinna. Aðeins má taka mann af lífi fyrir eigin afbrot.
17 Þú skalt ekki halla rétti aðkomumanns eða munaðarleysingja og þú skalt ekki taka fatnað ekkju að veði. 18Minnstu þess að þú varst þræll í Egyptalandi og að Drottinn, Guð þinn, leysti þig þaðan. Þess vegna býð ég þér að gera þetta.
19 Þegar þú hirðir uppskeruna á akri þínum og gleymir einu kornknippi á akrinum skaltu ekki snúa aftur til að sækja það. Það mega aðkomumaðurinn, munaðarleysinginn og ekkjan fá til þess að Drottinn, Guð þinn, blessi þig í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.
20 Þegar þú hefur hrist ávextina af ólífutrjám þínum skaltu ekki gera eftirleit í greinum trjánna. Það sem eftir er mega aðkomumaðurinn, munaðarleysinginn og ekkjan fá.
21 Þegar þú hefur tínt víngarð þinn máttu ekki gera eftirleit. Það sem eftir er mega aðkomumaðurinn, munaðarleysinginn og ekkjan fá. 22 Þú skalt minnast þess að þú varst þræll í Egyptalandi. Þess vegna býð ég þér að gera þetta.