Sjöunda árið: Uppgjöf skulda
1 Sjöunda hvert ár skaltu fella niður skuldir. 2 Eftir þessum reglum skaltu fella niður skuldir: Sérhver lánardrottinn skal falla frá kröfum vegna láns sem hann hefur veitt náunga sínum. Hann skal ekki ganga eftir greiðslu hjá náunga sínum og meðbróður því að niðurfelling skulda hefur verið boðuð vegna Drottins. 3 Þú mátt ganga hart að útlendingi en þú skalt gefa bróður þínum það eftir sem þú átt hjá honum.
4 Raunar á enginn þín á meðal að vera fátækur því að í landinu, sem Drottinn, Guð þinn, fær þér sem erfðaland og þú tekur til eignar, mun Drottinn blessa þig ríkulega 5 ef þú aðeins hlýðir Drottni, Guði þínum, og gætir þess að halda öll ákvæðin sem ég set þér í dag. 6 Því að Drottinn, Guð þinn, mun blessa þig eins og hann hét þér. Þá munt þú lána mörgum þjóðum en sjálfur ekki þurfa að taka lán og þú munt ríkja yfir mörgum þjóðum en engin mun ríkja yfir þér.
Lán til fátækra Ísraelsmanna
7 Ef einhver bræðra þinna er fátækur í einni af borgum þínum í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér skaltu ekki loka hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum með harðýðgi 8 heldur skalt þú ljúka upp hendi þinni fyrir honum. Þú skalt lána honum það sem hann skortir.
9 Gæt þess að hleypa ekki þessari ódrengilegu hugsun að: „Nú er skammt til sjöunda ársins þegar skuldir skulu felldar niður,“ og þú lítir þurfandi bróður þinn illu auga og gefir honum ekkert. Þá mun hann ákalla Drottin og ásaka þig og það verður þér til syndar.
10 Þú skalt gefa honum fúslega en ekki með ólund því að fyrir það mun Drottinn, Guð þinn, blessa öll þín verk og hvað sem þú tekur þér fyrir hendur. 11 Því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu og þess vegna geri ég þér þetta að skyldu: Ljúktu upp hendi þinni fyrir meðbræðrum þínum, fátækum og þurfandi í landi þínu.