Vaxtartakmark Krists fyllingar

1 Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni ykkur þess vegna um að hegða ykkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem þið hafið hlotið. 2 Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. 3 Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. 4 Einn er líkaminn og einn andinn eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur. 5 Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, 6 einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.
7 Sérhvert okkar þáði af Kristi sína náðargjöf. 8 Því segir ritningin: „Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf mönnunum gjafir.“ 9 En „steig upp“, hvað merkir það annað en að hann hefur einnig stigið niður í undirdjúp jarðarinnar? 10 Sá sem steig niður er og sá sem upp sté, upp yfir alla himna til þess að fullna allt. 11 Og frá honum er sú gjöf komin að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar. 12 Þeir eiga að fullkomna hin heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar, 13 þangað til við verðum öll einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar. 14 Við eigum ekki að halda áfram að vera börn sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi og tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar. 15 Við eigum heldur að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans sem er höfuðið, Kristur. 16 Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.