Réttlætt af trú

1 Réttlætt af trú höfum við því frið við Guð sakir Drottins vors Jesú Krists. 2 Hann hefur veitt okkur aðgang að þeirri náð sem við lifum í og við fögnum í voninni um dýrð Guðs. 3 En ekki aðeins það: Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin 4 veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. 5 Og vonin bregst okkur ekki. Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.
6 Meðan við enn vorum vanmegna dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega. 7 Varla gengur nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann. Fyrir góðan mann kynni einhver ef til vill að vilja deyja. 8 En Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar. 9 Því fremur mun hann nú frelsa okkur frá reiðinni þar sem við erum réttlætt fyrir blóð Krists. 10 Hafi Guð, þegar við vorum óvinir hans, tekið okkur í sátt með dauða sonar síns, mun hann því fremur nú, þegar hann hefur sætt okkur við sig, frelsa okkur með lífi hans. 11 Og ekki það eitt, heldur fögnum við í Guði vegna Drottins vors Jesú Krists sem hefur sætt okkur við Guð.