Kveðja

1 Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú, og Tímóteus, bróðir vor, heilsa 2 þeim í Kólossu sem eru trúuð og helguð systkin[ í Kristi. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum.

Þakkir og fyrirbæn

3 Ég þakka Guði, föður Drottins vors Jesú Krists, ávallt er ég bið fyrir ykkur. 4 Ég hef heyrt um trú ykkar á Krist Jesú og um kærleikann sem þið berið til allra heilagra 5 vegna vonarinnar um það sem þið eigið geymt í himnunum og þið hafið áður heyrt um í orði sannleikans, fagnaðarerindinu. 6 Það er ekki aðeins komið til ykkar heldur alls heimsins og ber ávöxt og vex eins og það hefur líka gert hjá ykkur frá þeim degi er þið heyrðuð það og sannfærðust um náð Guðs. 7 Hið sama hafið þið og numið af Epafrasi, elskuðum samþjóni okkar, sem er trúr þjónn Krists í ykkar þágu.[ 8 Hann hefur og sagt okkur frá kærleika ykkar sem andinn hefur vakið með ykkur.
9 Frá þeim degi, er ég heyrði þetta, hef ég því ekki látið af að biðja fyrir ykkur. Ég bið þess að Guð láti anda sinn auðga ykkur að þekkingu á vilja sínum með allri speki og skilningi 10 svo að þið breytið eins og Guði líkar og þóknist honum á allan hátt, að þið berið ávöxt með hvers kyns góðum verkum og vaxið að þekkingu á Guði. 11Hann styrki ykkur á allar lundir með dýrðarmætti sínum svo að þið fyllist þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi og getið með gleði 12 þakkað[ föðurnum sem hefur gert ykkur fært að fá arfleifð heilagra í ljósinu.