22 Segðu því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Það er ekki ykkar vegna að ég læt til mín taka, Ísraelsmenn, heldur vegna míns heilaga nafns sem þið hafið vanhelgað meðal þjóðanna sem þið eruð komnir til. 23 Ég mun helga mitt mikla nafn sem hefur verið vanhelgað á meðal þjóðanna því að þið hafið vanhelgað það á meðal þeirra. Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn, segir Drottinn Guð, þegar ég birti heilagleika minn á ykkur fyrir augum þeirra. 24 Ég mun sækja ykkur frá öllum þjóðunum og safna ykkur saman úr öllum löndunum og flytja ykkur til ykkar eigin lands. 25 Ég mun dreypa á ykkur hreinu vatni svo að þið verðið hreinir. Ég mun hreinsa ykkur af öllum óhreinindum ykkar og skurðgoðum. 26 Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama ykkar og gefa ykkur hjarta af holdi. 27 Ég mun leggja ykkur anda minn í brjóst svo að þið farið að boðum mínum og haldið reglur mínar og framfylgið þeim. 28 Þið skuluð búa í landinu sem ég gaf feðrum ykkar og þið skuluð vera mín þjóð og ég skal vera Guð ykkar. 29 Ég mun frelsa ykkur frá öllu því sem þið hafið saurgast af. Þá mun ég kalla á kornið og láta það spretta en ekki senda hungursneyð gegn ykkur. 30 Ég mun einnig auka ávöxt trjánna og afrakstur akranna svo að þið þurfið ekki framar að þola smánaryrði frá öðrum þjóðum vegna hungurs. 31 Þá munuð þið minnast ykkar illu breytni og vondu verka og ykkur mun bjóða við sjálfum ykkur vegna afbrota ykkar og illvirkja. 32 Það er ekki ykkar vegna að ég læt til mín taka, segir Drottinn Guð, það skuluð þið vita. Blygðist ykkar og verið sneyptir vegna breytni ykkar, Ísraelsmenn.