14 Þegar postularnir í Jerúsalem heyrðu að íbúar Samaríu hefðu tekið við orði Guðs sendu þeir til þeirra þá Pétur og Jóhannes. 15 Þeir fóru norður þangað og báðu Guð um að veita þeim heilagan anda 16 því að enn var andinn ekki kominn yfir neinn þeirra. Þeir voru aðeins skírðir til nafns Drottins Jesú. 17 Nú lögðu þeir hendur yfir þá og fengu þeir heilagan anda.
18 En er Símon sá að menn fengu heilagan anda þegar postularnir lögðu hendur yfir þá bauð hann þeim fé og sagði: 19 „Gefið einnig mér þetta vald, að hver sá er ég legg hendur yfir fái heilagan anda.“
20 En Pétur svaraði: „Þrífist aldrei silfur þitt né sjálfur þú fyrst þú hugðist eignast gjöf Guðs fyrir fé. 21 Þú átt hvorki skerf né hlut í þessu því að þú ert ekki einlægur í hjarta þínu gagnvart Guði. 22 Snú því huga þínum frá þessari illsku þinni og bið Drottin að hann mætti fyrirgefa þér það sem þú hafðir í huga 23 því ég sé að þú ert fullur gallbeiskju og fjötraður ranghugsun.“
24 Símon sagði: „Biðjið fyrir mér til Drottins að ekkert komi það yfir mig sem þið hafið mælt.“
25 Er þeir höfðu nú vitnað og boðað orð Drottins sneru þeir aftur áleiðis til Jerúsalem og boðuðu fagnaðarerindið í mörgum þorpum Samverja.