1 Sál lét sér vel líka líflát hans.

Sál ofsækir söfnuðinn

Á þeim degi hófst mikil ofsókn gegn söfnuðinum í Jerúsalem. Allir nema postularnir dreifðust út um byggðir Júdeu og Samaríu. 2 Guðræknir menn greftruðu Stefán og höfðu sorgarathöfn mikla. 3 En Sál gerði sér allt far um að uppræta söfnuðinn. Hann óð inn í hvert hús, dró þaðan bæði karla og konur og lét setja í varðhald.

Kristur boðaður í Samaríu

4 Þeir sem dreifst höfðu fóru víðs vegar og fluttu fagnaðarerindið. 5 Filippus fór norður til höfuðborgar[ Samaríu og prédikaði Krist þar. 6 Menn hlýddu með athygli á orð Filippusar þegar þeir heyrðu hann tala og sáu táknin sem hann gerði. 7 Margir höfðu óhreina anda og fóru þeir út af þeim með ópi miklu. Margir lama menn og haltir voru læknaðir. 8 Mikill fögnuður varð í þeirri borg.
9 Maður nokkur, Símon að nafni, var fyrir í borginni. Hann lagði stund á töfra og vakti hrifningu fólksins í Samaríu. Hann þóttist vera næsta mikill. 10 Allir flykktust til hans, háir og lágir, og sögðu: „Þessi maður er kraftur Guðs, sá hinn mikli.“ 11 En því flykktust menn um hann að hann hafði lengi glapið þá með töfrum. 12 Nú trúðu menn Filippusi þegar hann flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki og nafn Jesú Krists og létu skírast, bæði karlar og konur. 13Meira að segja Símon tók trú. Hann var skírður og gerðist mjög fylgisamur Filippusi. Og er hann sá tákn og mikil kraftaverk gerast var hann frá sér numinn.