Pétur og Jóhannes fyrir ráðinu

1 Meðan þeir Pétur og Jóhannes voru að tala til fólksins komu að þeim prestarnir, varðforingi helgidómsins og saddúkearnir. 2 Þeir voru æfir yfir því að postularnir voru að kenna fólkinu og boða upprisuna frá dauðum í krafti Jesú. 3 Lögðu þeir hendur á þá og hnepptu þá í varðhald til næsta morguns því að kvöld var komið. 4 En mörg þeirra, er heyrt höfðu orðið, tóku trú og tala karlmannanna einna varð um fimm þúsundir.
5 Morguninn eftir komu höfðingjarnir, öldungarnir og fræðimennirnir saman í Jerúsalem. 6 Þar voru Annas, æðsti prestur, Kaífas, Jóhannes, Alexander og allir sem voru af æðstaprestsættum. 7 Þeir létu leiða postulana fram og spurðu þá: „Með hvaða krafti eða í hvers nafni gerðuð þið þetta?“
8 Þá sagði Pétur við þá, fylltur heilögum anda: „Höfðingjar þjóðar okkar og öldungar, 9 með því að við eigum í dag að svara til saka vegna góðverks við sjúkan mann og gera grein fyrir því hvernig hann sé orðinn heill, 10 þá sé ykkur öllum kunnugt og öllum Ísraelslýð að í nafni Jesú Krists frá Nasaret, þess er þið krossfestuð en Guð uppvakti frá dauðum, í hans nafni stendur þessi maður heilbrigður fyrir augum ykkar. 11 Jesús er
steinninn sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis,
hann er orðinn að hyrningarsteini.

12 Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld sem getur frelsað okkur.“