Blessun yfir Ísrael

1Hlýð þú á, Jakob, þjónn minn,
og Ísrael sem ég hef útvalið.
2Svo segir Drottinn sem skapaði þig,
mótaði þig í móðurlífi og hjálpar þér:
Óttast ekki, Jakob, þjónn minn,
Jesjúrún sem ég hef útvalið
3því að ég helli vatni yfir hið þyrsta land
og veiti ám um þurrlendið.
Ég úthelli anda mínum yfir niðja þína
og blessun minni yfir börn þín.
4Þau munu dafna eins og sef við vatn,
eins og pílviðir á lækjarbökkum.
5Eitt þeirra mun segja: „Ég heyri Drottni til,“
annað mun nefna sig nafni Jakobs,
enn annað rita á hönd sér: „Eign Drottins“,
og taka sér sæmdarheitið Ísrael.