Hús mitt bænahús

15 Þeir komu til Jerúsalem og Jesús gekk í helgidóminn og tók að reka út þá sem voru að selja þar og kaupa og hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna. 16 Og engum leyfði hann að bera neitt um helgidóminn. 17Og hann kenndi þeim og sagði: „Er ekki ritað: Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir? En þið hafið gert það að ræningjabæli.“
18 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir heyrðu þetta og leituðu fyrir sér hvernig þeir gætu ráðið hann af dögum. Þeim stóð ótti af honum því að allt fólkið hreifst mjög af kenningu hans.
19 Þegar leið að kvöldi fóru þeir úr borginni.

Trúið á Guð

20 Árla morguns fóru þeir hjá fíkjutrénu og sáu að það var visnað frá rótum. 21 Pétur minntist þess sem gerst hafði og segir við hann: „Meistari, sjáðu! fíkjutréð, sem þú formæltir, er visnað.“
22 Jesús svaraði þeim: „Trúið á Guð. 23 Sannlega segi ég ykkur: Hver sem segir við fjall þetta: Lyft þér upp og steyp þér í hafið, og efar ekki í hjarta sínu heldur trúir að svo fari sem hann mælir, þá gerist það. 24 Fyrir því segi ég ykkur: Ef þið biðjið Guð um eitthvað og treystið því að þið öðlist það, þá mun hann veita ykkur það. 25 Og þegar þið eruð að biðja, þá fyrirgefið þeim sem hafa gert eitthvað á hlut ykkar til þess að faðir ykkar á himnum fyrirgefi einnig ykkur misgjörðir ykkar. [ 26 Ef þið fyrirgefið ekki mun faðir ykkar á himnum ekki heldur fyrirgefa misgjörðir ykkar.]“[