Vígslubæn konungs

22 Þessu næst gekk Salómon fyrir altari Drottins andspænis öllum söfnuði Ísraels, lauk upp lófum til himins 23 og bað: „Drottinn, Guð Ísraels, enginn guð er sem þú, hvorki á himni né á jörðu. Þú heldur sáttmálann og sýnir þeim þjónum þínum trúfesti sem breyta af heilum hug frammi fyrir augliti þínu. 24 Þú hefur staðið við það sem þú lofaðir þjóni þínum, Davíð föður mínum. Það sem þú lofaðir með munni þínum hefur þú efnt í dag með hendi þinni. 25Drottinn, Guð Ísraels, efndu nú einnig fyrirheitið sem þú gafst þjóni þínum, Davíð föður mínum, þegar þú sagðir: Niðjar þínir munu ætíð sitja frammi fyrir mér í hásæti Ísraels svo framarlega sem þeir vanda framferði sitt og breyta frammi fyrir mér eins og þú hefur gert. 26 Guð Ísraels, stattu nú við fyrirheitið sem þú gafst Davíð, þjóni þínum.
27 Býr Guð þá í raun og veru á jörðinni? Nei, jafnvel himinninn og himnar himnanna rúma þig ekki, hvað þá þetta hús sem ég hef byggt. 28 Gefðu gaum að ákalli þjóns þíns og bæn hans, Drottinn Guð. Heyr ákallið og bænina sem ég, þjónn þinn, ber fram fyrir þig í dag.
29 Lát augu þín vaka yfir þessu húsi dag og nótt, þeim stað sem þú hefur sagt um: Þar skal nafn mitt búa. Heyr bænina er þjónn þinn biður á þessum stað. 30 Er þjónn þinn og lýður þinn, Ísrael, biður og snýr í átt til þessa staðar, heyr ákall hans. Hlustaðu á það í himninum þar sem þú býrð. Heyr það og fyrirgef.