Ræða Péturs

34 Þá tók Pétur til máls og sagði: „Sannlega skil ég nú að Guð fer ekki í manngreinarálit. 35 Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er. 36 Þið þekkið orðið sem hann sendi börnum Ísraels þegar hann flutti fagnaðarerindið um frið fyrir Jesú Krist sem er Drottinn allra. 37 Þið vitið hvað gerst hefur um alla Júdeu en hófst í Galíleu eftir skírnina sem Jóhannes prédikaði. 38 Það er sagan um Jesú frá Nasaret, hvernig Guð smurði hann heilögum anda og krafti. Hann gekk um, gerði gott og græddi alla sem djöfullinn undirokaði því að Guð var með honum. 39 Við erum vottar alls þess er hann gerði, bæði í landi Gyðinga og í Jerúsalem. Og hann tóku þeir af lífi með því að hengja hann upp á tré. 40 En Guð uppvakti hann á þriðja degi og lét hann birtast, 41 ekki öllum almenningi heldur okkur, vottunum sem Guð hafði áður valið. Við átum og drukkum með honum eftir að hann var risinn upp frá dauðum. 42 Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra. 43 Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“
44 Meðan Pétur var enn að mæla þessi orð kom heilagur andi yfir alla þá er orðið heyrðu. 45 Hinir trúuðu Gyðingar, sem komið höfðu með Pétri, urðu furðu lostnir að Guð hefði einnig gefið heiðingjunum heilagan anda 46 því þeir heyrðu þá tala tungum og mikla Guð. Þá mælti Pétur: 47 „Hver getur varnað þess að þeir verði skírðir í vatni? Þeir hafa fengið heilagan anda sem við.“ 48 Og hann bauð að þeir skyldu skírðir í nafni Jesú Krists. Síðan báðu þeir hann að standa við í nokkra daga.