21. kafli

22 Ég sá ekki musteri í henni því að Drottinn Guð, hinn alvaldi, er musteri hennar og lambið. 23 Og borgin þarf hvorki sólar við né tungls til að lýsa sér því að dýrð Guðs skín á hana og lambið er lampi hennar. 24 Og þjóðirnar munu ganga í ljósi hennar og konungar jarðarinnar færa henni auðæfi sín. 25 Hliðum hennar verður ekki lokað um daga því að þar mun aldrei koma nótt. 26 Dýrð og vegsemd þjóðanna mun flytjast þangað. 27 Ekkert óhreint, enginn sem fremur viðurstyggð eða fer með lygi mun koma þangað inn heldur þeir einir sem ritaðir eru í lífsins bók, bók lambsins.

22. kafli

1 Og hann sýndi mér móðu lífsvatnsins, skæra sem kristall. Hún rann frá hásæti Guðs og lambsins 2 eftir miðju stræti borgarinnar. Beggja vegna móðunnar var lífsins tré sem ber tólf sinnum ávöxt. Í hverjum mánuði ber það ávöxt sinn. Blöð trésins eru til lækningar þjóðunum. 3 Engin bölvun mun framar til vera. Og hásæti Guðs og lambsins mun vera í borginni og þjónar hans munu þjóna honum. 4 Þeir munu sjá ásjónu hans og nafn hans mun vera á ennum þeirra. 5 Nótt mun ekki framar til vera og þeir þurfa hvorki lampaljós né sólarljós því að Drottinn Guð skín á þá og þeir munu ríkja um aldir alda.