1 Fyrri sögu mína, Þeófílus, samdi ég um allt sem Jesús gerði og kenndi frá upphafi, 2 allt til þess dags er hann varð upp numinn. Áður hafði hann gefið postulunum, sem hann hafði valið með heilögum anda, fyrirmæli sín. 3Hann birtist þeim eftir dauða sinn og sýndi þeim með órækum sönnunum að hann lifði. Hann lét þá sjá sig í fjörutíu daga og talaði um Guðs ríki. 4 Er Jesús neytti matar með þeim bauð hann þeim að fara ekki burt úr Jerúsalem heldur bíða eftir því sem faðirinn gaf fyrirheit um „og þér hafið heyrt mig tala um. 5 Því að Jóhannes skírði með vatni en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga.“

Upp numinn

6 Meðan þeir voru saman spurðu þeir hann: „Drottinn, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“
7 Hann svaraði: „Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir sem faðirinn hefur sjálfur ákveðið. 8 En þér munuð öðlast kraft er heilagur andi kemur yfir yður og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ 9 Þegar hann hafði mælt þetta varð hann upp numinn að þeim ásjáandi og ský huldi hann sjónum þeirra.