Afleiðing upprisu Krists

12 Ef við nú prédikum að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkur ykkar sagt að dauðir rísi ekki upp? 13 Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn 14 en ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun okkar, ónýt líka trú ykkar. 15 Við reynumst þá vera ljúgvottar um Guð þar eð við höfum vitnað um Guð að hann hafi uppvakið Krist, sem hann hefur ekki uppvakið, svo framarlega sem dauðir rísa ekki upp. 16 Ef dauðir rísa ekki upp er Kristur ekki heldur upprisinn 17 en ef Kristur er ekki upprisinn er trú ykkar fánýt. Syndir ykkar eru þá ekki enn í burtu teknar. 18 Þá eru einnig þau glötuð sem sofnuðu í trú á Krist. 19 Ef von okkar til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum við aumkunarverðust allra manna.
20 En nú er Kristur upprisinn frá dauðum, frumgróði þeirra sem sofnuð eru. 21 Eins og dauðinn kom með manni, þannig kemur upprisa dauðra með manni. 22 Eins og allir deyja vegna sambands síns við Adam, svo munu allir lífgaðir verða vegna sambands síns við Krist. 23 En sérhver í sinni röð: Kristur er frumgróðinn,[ næst koma þeir sem játa hann þegar hann kemur. 24 Síðan kemur endirinn er Kristur selur ríkið Guði föður í hendur, er hann hefur að engu gert sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft. 25 Því að Kristur á að ríkja uns hann hefur lagt alla fjendurna að fótum sér. 26 Dauðinn er síðasti óvinurinn sem verður að engu gerður. 27 „Allt hefur hann lagt undir fætur honum.“ Þegar segir að allt hafi verið lagt undir hann er augljóst að sá er undan skilinn sem lagði allt undir hann. 28 Þegar allt hefur verið lagt undir hann mun og sonurinn sjálfur skipa sig undir föðurinn er lagði alla hluti undir hann svo að Guð verði allt í öllu.