Hjálpræðið kemur

1Sökum Síonar get ég ekki þagað
og vegna Jerúsalem ekki verið hljóður [
fyrr en réttlæti hennar brýst fram eins og ljómi
og hjálpræði hennar logar sem kyndill.
2Þjóðirnar munu sjá réttlæti þitt
og allir konungar dýrð þína,
þér verður gefið nýtt nafn
sem munnur Drottins ákveður.
3Þú verður vegleg kóróna í hendi Drottins
og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns.
4Þú munt ekki framar nefnd verða Yfirgefin
og land þitt nefnt Auðn,
heldur verður þú nefnd Yndi mitt
og land þitt Eiginkona
því að Drottinn ann þér
og land þitt mun honum gefið.
5Eins og æskumaður fær ungrar stúlku
mun sá er endurreisir þig kvænast þér, [
eins og brúðgumi gleðst yfir brúði
mun Guð þinn gleðjast yfir þér.
6Ég setti varðmenn á múra þína, Jerúsalem,
þeir mega aldrei þagna, hvorki dag né nótt.
Þér, sem eigið að minna Drottin á,
unnið yður engrar hvíldar
7og veitið honum enga ró
fyrr en hann hefur endurreist Jerúsalem
og gert hana vegsamlega á jörðinni. [