Hanna og Elí

9 Að lokinni máltíð í Síló stóð Hanna á fætur og gekk fram fyrir auglit Drottins. Elí prestur sat á stól sínum við dyrastafinn á musteri Drottins. 10 Full örvæntingar bað hún til Drottins, 11 grét sáran og vann svohljóðandi heit: „Drottinn hersveitanna, ef þú lítur á neyð ambáttar þinnar og minnist mín og ef þú gleymir ekki ambátt þinni og gefur mér son, þá skal ég gefa hann Drottni alla ævi hans og rakhnífur skal ekki snerta höfuð hans.“[
12 Hún bað lengi frammi fyrir Drottni og á meðan fylgdist Elí með munni hennar 13 en Hanna baðst fyrir í hljóði. Af því að varir hennar bærðust án þess að rödd hennar heyrðist hélt Elí að hún væri drukkin 14 og sagði við hana: „Hversu lengi ætlar þú að láta sjá þig drukkna? Láttu renna af þér.“ 15 Hanna svaraði: „Nei, herra. Ég er aðeins örvingluð kona og hef hvorki bragðað vín né áfengt öl. Ég hef aðeins létt á hjarta mínu fyrir Drottni. 16 Líttu ekki á ambátt þína sem úrhrak. Ég hef talað svona lengi af sorg og örvæntingu.“ 17 Elí svaraði og sagði: „Farðu í friði. Guð Ísraels mun veita þér það sem þú baðst hann um.“ 18 Hún sagði: „Megi ambátt þín finna náð fyrir augum þínum.“ Gekk hún síðan leiðar sinnar, byrjaði aftur að borða og var ekki lengur döpur í bragði.
19 Morguninn eftir fóru þau snemma á fætur, báðu til Drottins og sneru síðan aftur heim til Rama. Elkana kenndi Hönnu, konu sinnar, og Drottinn minntist hennar 20 og varð hún þunguð. Í lok ársins fæddi hún son og nefndi hann Samúel, „af því að ég hef beðið Drottin um hann“.