1 Í Ramataím í Efraímsfjöllum bjó maður af Súfætt. Hann hét Elkana og var sonur Jeróhams Elíhúsonar, Tóhúsonar, Súfssonar frá Efraím. 2 Hann átti tvær eiginkonur, hét önnur Hanna en hin Peninna. Peninna átti börn en Hanna ekki.
3 Elkana fór á hverju ári frá borginni, þar sem hann bjó, upp til Síló til að biðjast þar fyrir og færa Drottni hersveitanna sláturfórn. Þar voru báðir synir Elí, Hofní og Pínehas, prestar Drottins. 4 Jafnan þegar Elkana færði sláturfórn gaf hann Peninnu, konu sinni, sonum hennar og dætrum sinn hlut hverju af kjötinu. 5 Hönnu gaf hann tvöfaldan hlut því að hann elskaði hana þó að Drottinn hefði lokað móðurlífi hennar. 6 Hin konan olli Hönnu sárri gremju og skapraunaði henni af því að Drottinn hafði lokað móðurlífi hennar. 7 Þessu fór fram ár eftir ár. Í hvert skipti, sem Hanna fór upp til húss Drottins, skapraunaði Peninna henni svo að hún fór að gráta og vildi ekki borða. 8 Elkana, maður hennar, sagði þá við hana: „Hanna, hvers vegna grætur þú og borðar ekki? Hvers vegna ertu svona döpur? Er ég þér ekki meira virði en tíu synir?“