19 Manóa tók geithafurinn og matfórnina og færði hana Drottni á kletti einum. Þá urðu undur mikil að þeim Manóa og konu hans ásjáandi. 20 Þegar logann lagði upp af altarinu til himins leið engill Drottins upp í altarisloganum. Þegar þau Manóa og kona hans sáu það féllu þau til jarðar fram á ásjónu sína. 21 Eftir þetta birtist engill Drottins Manóa og konu hans ekki framar. Þá sá Manóa að þetta hafði verið engill Drottins. 22 Manóa sagði við konu sína: „Við munum örugglega deyja því að við höfum séð Guð.“
23 En kona hans svaraði: „Hefði Drottinn viljað deyða okkur þá hefði hann ekki þegið brennifórn og matfórn af okkur eða látið okkur sjá allt þetta og þá hefði hann ekki látið okkur heyra hluti sem þessa.“
24 Konan ól son og nefndi hann Samson og sveinninn óx upp og Drottinn blessaði hann. 25 Og andi Drottins tók að hreyfa við honum í herbúðum Dans milli Sorea og Estaól.