Fæðing Samsonar

1 Ísraelsmenn gerðu enn að nýju það sem illt var í augum Drottins. Þá gaf Drottinn þá í hendur Filisteum í fjörutíu ár.
2 Maður er nefndur Manóa. Hann var frá Sorea, af ætt Dans. Kona hans var óbyrja og hafði ekki barn alið. 3 Engill Drottins birtist konunni og sagði við hana: „Þú ert óbyrja og hefur ekkert barn alið en þú munt verða þunguð og fæða son. 4 Hafðu nú gætur á þér, drekktu hvorki vín né áfengan drykk og leggðu þér ekkert óhreint til munns 5 því að þú verður þunguð og fæðir son og skal rakhnífur ekki koma á höfuð hans því að sveinninn skal vera helgaður Guði allt frá móðurlífi og hann mun hefja frelsun Ísraels úr hendi Filistea.“ 6 Þá fór konan og sagði við mann sinn: „Guðsmaður nokkur kom til mín og var hann svo ógurlegur ásýndum sem engill Guðs væri en ég spurði hann ekki hvaðan hann væri og nafn sitt sagði hann mér ekki. 7 Hann sagði við mig: Þú munt verða þunguð og fæða son. Drekktu því hvorki vín né áfengan drykk og leggðu þér ekkert óhreint til munns því að sveinninn skal vera helgaður Guði allt frá móðurlífi til dauðadags.“