1Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.
2Það mæli Ísrael
því að miskunn hans varir að eilífu.
3Það mæli Arons ætt
því að miskunn hans varir að eilífu.
4Það mæli þeir sem óttast Drottin
því að miskunn hans varir að eilífu.
5Í þrengingunni ákallaði ég Drottin,
hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.
6Drottinn er með mér, ég óttast eigi,
hvað geta menn gert mér?
7Drottinn er með mér, hann hjálpar mér
og ég get hlakkað yfir hatursmönnum mínum.
8Betra er að leita hælis hjá Drottni
en að treysta mönnum,
9betra er að leita skjóls hjá Drottni
en að treysta tignarmönnum.
10Framandi þjóðir umkringdu mig
en í nafni Drottins hef ég sigrað þær.
11Þær umkringdu mig á alla vegu
en ég sigraði þær í nafni Drottins.
12Þær umkringdu mig eins og býflugnasveimur,
fuðruðu upp eins og eldur í þyrnum,
en í nafni Drottins hef ég sigrað þær.
13Mér var hrint og var nærri fallinu
en Drottinn veitti mér lið.
14Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,
hann varð mér til hjálpræðis.